Starfsreglur stjórnar Skólastræti Tækniskólans ehf.

20. nóvember 2024

1. Markmið

1.1. Stjórn Skólastrætis Tækniskólans ehf. („Skólastræti“ eða „félagið“) mótar stefnu félagsins í samræmi við tilgang þess eins hann er ákveðinn í samþykktum félagsins:

„Tilgangur félagsins er bygging, rekstur og eignarhald fasteigna utan um starfsemi Tækniskólans – skóla atvinnulífsins og tengdur rekstur, í samræmi við samkomulag milli ríkisins, Hafnarfjarðarbæjar og Tækniskólans ehf., dags. 27. júní 2024.“

1.2. Starfshættir stjórnar félagsins hverju sinni ráðast að miklu leyti af stöðu framkvæmda við nýjar höfuðstöðvar Tækniskólans (einnig nefnd „byggingin“) og geta tekið breytingum eftir því sem þeim vindur fram og eftir að byggingin verður tekin til notkunar.

1.3. Stjórn félagsins fer með yfirstjórn allra málefna þess, ræður framkvæmdastjóra og veitir honum prókúru.

1.4. Stjórn Skólastrætis hefur sett sér eftirfarandi starfsreglur sem byggja á samþykktum félagsins.

2. Fundir stjórnar

2.1. Í upphafi hvers starfsárs skal stjórn samþykkja starfsáætlun stjórnar á árinu, þ.m.t. fyrirhugaða dagsetningu stjórnarfunda.

2.2. Formaður stjórnar félagsins skal boða til stjórnarfunda. Leitast skal við að boða til funda með a.m.k. fimm daga fyrirvara. Dagskrá fundar og þau gögn sem fara á yfir á stjórnarfundi skulu liggja fyrir eins fljótt og hægt er í aðdraganda viðkomandi fundar, þannig að stjórnarmenn geti kynnt sér þau fyrir fundinn. Allir stjórnarmenn skulu boðaðir til hvers stjórnarfundar með tölvupósti.  

2.3. Framkvæmdastjóri Skólastrætis situr alla stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt og undirbýr fundina í samráði við formann stjórnar. Skólameistari Tækniskólans skal jafnframt hafa heimild til setu á stjórnarfundum í félaginu og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

2.4. Formaður stjórnar Skólastrætis stjórnar fundum, skipar fundarritara og annast undirritun fundargerða.

2.5. Einungis stjórnarmenn félagsins hafa atkvæðisrétt á stjórnarfundum og telst tillaga samþykkt með einföldum meiri hluta stjórnarmanna.

2.6. Heimilt skal að halda stjórnarfundi með rafrænum hætti.

3. Stýrihópur stjórnar

3.1. Í upphafi hvers starfsárs skal stjórn samþykkja starfsáætlun stjórnar á árinu, þ.m.t. fyrirhugaða dagsetningu stjórnarfunda.

3.2. Stýrihópurinn skal koma fram sem milliliður milli stjórnar félagsins og framkvæmdastjóra, leitast við að fylgjast með því að ákvörðunum stjórnar varðandi bygginguna sé framfylgt og vera framkvæmdastjóra til stuðnings milli stjórnarfunda. Skal stýrihópnum heimilt að taka ákvarðanir um einstök atriði er varða bygginguna sem falla innan samþykktra áætlana hverju sinni. Allar meiriháttar ákvarðanir skulu eftir sem áður háðar samþykki stjórnar, sbr. þó grein 5.4.

3.3. Stýrihópurinn skal sjálfur skipta með sér verkum og taka ákvarðanir með meiri hluta atkvæða. Við töku ákvarðana skal þó leitast við að ná einróma samþykki innan stýrihópsins. Skal framkvæmdastjóri virða ákvarðanir stýrihópsins nema stjórn félagsins ákveði annað.

3.4. Skal framkvæmdastjóri boða til fundastýrihópsins, að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni eins eða fleiri meðlima stýrihópsins. Að öðru leyti skal fyrirkomulag starfa stýrihópsins ákveðið af stýrihópnum, í samráði við framkvæmdastjóra.  

4. Réttindi og skyldur stjórnarmanna, meðlima stýrihópsins og framkvæmdastjóra

4.1. Stjórnarmenn hafa hver fyrir sig rétt til að óska eftir stjórnarfundi og skal hann haldinn svo fljótt sem auðið er eftir að skrifleg beiðni berst.

4.2. Stjórnarmenn hafa rétt til upplýsinga um starfsemi félagsins frá framkvæmdastjóra og til að leggja fram beiðnir um skýrslur og athuganir. Öllum beiðnum um slíkt skal miðlað í gegnum formann stjórnar og allar upplýsingar og gögn skulu afhent öllum stjórnarmönnum á sama tíma.

4.4. Stjórnarmenn skulu upplýsa stjórnina um möguleg hagsmunatengsl er kunna að gera þá vanhæfa til umfjöllunar um einstök mál og skal stjórn þá ákveða framgang málsins.

4.5. Stjórnarmenn og allir sem sitja fundi stjórnar hafa þagnarskyldu um umræður og ákvarðanir stjórnar á hverjum tíma, nema meirihluti stjórnar ákveði annað og að því gefnu að veita megi upplýsingar um slíkt án tjóns fyrir félagið.

5. Um  stjórn og framkvæmdastjóra

5.1. Stjórn Skólastrætis veitir framkvæmdastjóra þess prókúru og umboð til að annast allan daglegan rekstur Skólastrætis samkvæmt samþykktum félagsins.

5.2. Stjórn Skólastrætis skal eigi síðar en í desember ár hvert taka til afgreiðslu tillögu framkvæmdastjóra um rekstrar- og framkvæmdaáætlun félagsins fyrir næsta fjárhagsár ásamt markmiðsáætlun.

5.3. Framkvæmdastjóri skal með hliðsjón af grein 5.2 leitast við að halda rekstri og fjárútlátum innan samþykktra áætlana og skal leggja fyrir stjórn ákvarðanir sem ekki eru innan samþykktra áætlana.

5.4. Ef nauðsyn kallar á skjótar ákvarðanir sem ekki eru hluti daglegs rekstrar eða áætlana og ekki er mögulegt að kalla til stjórnarfund skal framkvæmdastjóri ráðfæra sig við formann stjórnar áður en ákvörðun er tekin. Öðrum stjórnarmönnum skal jafnframt gert viðvart um slík mál.

5.5. Framkvæmdastjóri annast öll samskipti við aðila utan félagsins og kemur fram fyrir þess hönd nema annað sé ákveðið í samráði við formann og stjórn.

5.6. Framkvæmdastjóri skal annast varðveislu allra gagna félagsins er lúta að stjórn og stjórnarstörfum svo sem fundargerðarbækur, gögn vegna aðalfunda, ársreikninga og annað þessu skylt.

6. Upplýsingar

6.1. Framkvæmdastjóri skal leitast við að halda stjórnarmönnum upplýstum um málefni félagsins á hverjum tíma. Framkvæmdastjóri skal með reglubundnum hætti og eigi sjaldnar en mánaðarlega upplýsa stjórn um framgang og stöðu framkvæmdanna við byggingu nýrra höfuðstöðva Tækniskólans, sem og áfallinn kostnað í samanburði við samþykkta kostnaðaráætlun verksins.

6.2. Fundargerðum stjórnarfunda skal að jafnaði dreift til fundarmanna innan viku frá fundi og síðan undirritaðar af þeim stjórnarmönnum sem mættu á viðkomandi fund á næsta fundi.

Að öðru leyti vísast í samþykktir fyrir Skólastræti.

Breytingasaga skjals
1.0 Þannig samþykkt á fundi stjórnar 20. nóvember 2024.